Spurningar um meðferð
Hverskonar vandamál taka osteópatar að sér?
Osteópatar sérhæfa sig í vandamálum sem eru uppruninn frá stoðkerfinu. Þau geta verið margvísleg. Smelltu á "Hvað meðhöndla osteópatar?" til að sjá lista af vandamálum sem osteópatar meðhöndla.
Hversu fljótt má ég búast við árangri af meðhöndluninni?
Hversu árangursrík meðhöndlun verður má áætla á fyrstu tímunum, þá sést hversu vel einstaklingurinn bregst við þeim aðferðum sem osteópatinn er að beita. Ekki er hægt að tryggja að árangur verði af meðhöndlun. Öll vandamál eru einstök þótt að þau líti út fyrir að vera eins út á við og bregðast þess vegna við meðhöndlun á sinn einstaka máta.
Hversu langur er meðferðartíminn?
Venjulegur framhaldstími er gjarnan í kringum 30 mínútur, á meðan fyrsti tími er gjarnan tvöfalt lengri þar sem tími fer í skýrslutöku og upphafsskoðun. Tímar er þó mismunandi langir á milli osteóapata.
Hversu mikið þarf ég að klæða mig úr í tímanum?
Þú þarft aldrei að klæða þig úr meira en þú vilt sjálf/ur. Í flestum tilfellum óska osteópatar eftir því í fyrsta tíma að fá að skoða manneskjuna á undirfötunum til að geta skoðað stoðkerfið í heild sinni, ef viðkomandi er sáttur við það. Fyrir konur eru bómullarsokkabuxur (silki getur verið of sleipt) eða leggings og hlýrabolur sem er vel opinn yfir herðar og háls góður kostur ef þær kjósa svo.
Spurningar um greiðslur
Hvað kostar meðferð hjá osteópata?
Verðskráin er ekki samræmd milli osteópata. Gjarnan er fyrsti tíminn dýrari og tekur lengri tíma og meðan styttri framhaldstímar eru ódýrari. Ekki hika við að spyrja um verð þegar þú hringir til að fá upplýsingar.
Fæ ég endurgreitt frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) ef ég fer í meðferð til osteópata?
Nei. Þó svo að osteópatar séu löggild heilbrigðisstétt þá eru þeir ekki með samning við TR heldur starfa sjálfstætt. Langflestir sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga endurgreiða félagsmönnum sínum meðferðarkostnað ef þeir leita til osteópata.
Gefa osteópatar afslætti?
Þetta atriði er ekki samræmt milli osteópata. Endilega spurðu osteópatann hvort hann gefi afslætti þegar þú hringir til að fá upplýsingar.